Búast má við svipuðu ástandi í dag. Mælingar á brennisteinsdíoxíði (SO2) eru á 22 nettengdum mælistöðvum víða um land og má nálgast upplýsingar um styrk SO2 hér, auk þess eru 24 mælar sem eru ekki nettengdir og því ekki hægt að streyma mæligögnum samstundis á vefinn.
Þeir mælar eru vaktaðir og þegar gildin gefa til kynna hækkandi SO2 styrk er almenningi tilkynnt um það. Í gærkvöldi komu slík boð frá Ísafirði og voru SMS boð send í farsíma á Ísafirði og nágrenni um varnir og viðbrögð vegna mengunarinnar, auk þess sem upplýsingar voru settar á vef almannavarna.
Það er Umhverfisstofnum sem fylgist með styrk SO2 á landinu og er fólk hvatt til að fylgja ráðleggingum sóttvarnalæknis, Umhverfisstofnunar og almannavarna um áhrif SO2 á heilsufar og viðbrögð.
Einstaklingar sem telja sig finna fyrir óþægindum af völdum SO2 mengunar eru hvattir til að hafa samband við heilsugæsluna. Á vef almannarna um eldgosið er hægt að nálgast upplýsingar um loftgæði og annað varðandi upplýsingar um loftgæði.

Styrkur brennisteinsdíoxíðs í loftgæðamælistöð í Grafarvogi var klukkan 10:00 um 467 míkrógrömm á rúmmetra en í nótt fór styrkurinn hæst upp í 3394 míkrógröm á rúmmetra.
Líklegt að gildi geti orðið há þar og annars staðar í Reykjavík. Heilbrigðiseftirlitið vísar í töflu á heimasíðu Almannavarna , en þar kemur fram að ef styrkur fer yfir 600 míkrógrömm á rúmmetra er fólki ráðlagt að forðast áreynslu utandyra. Fólki sem er viðkvæmt í lungum er ráðlagt að fylgjast sérstaklega vel með.