Íslenski boltinn

Vilja yfirbyggða stúku og hlaupabrautina burt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
KSÍ hefur lagt fram hugmyndir að nýjum og endurbættum Laugardalsvelli með fimmtán þúsund manna stúku og engri hlaupabraut. Þetta kom fram í Morgunblaðinu í dag.

Lengi hefur verið kallað eftir því úr knattspyrnuhreyfingunni að hlaupabrautin á Laugardalsvelli verði fjarlægð og nú eru hugmyndir um að byggja frekar upp áhorfendaaðstöðu á vellinum.

Meðal þeirra tillagna sem liggja fyrir er yfirbyggð stúka sem nær allan hringinn í kringum völlinn auk þess sem að nú þegar liggur fyrir styrkur frá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, fyrir að skipta um gras og gera völlinn upphitaðan.

„Við viljum að byrjað verði á þessu að ári, þegar Smáþjóðaleikunum er lokið og undankeppni EM,“ er haft eftir Geir Þorsteinssyni, formanni KSÍ, í Morgunblaðinu í dag.

„Við myndum kjósa að hlaupabrautin yrði fjarlægð í leiðinni en um þetta eigum við eftir að ræða betur við borgina,“ segir Geir og bætir við að um það hafi náðst samkomulag við frjálsíþróttahreyfinguna. Ekki liggur þó fyrir áætlun um neina uppbyggingu nýs frjálsíþróttavallar í Laugardalnum.

Geir bendir þó á að KSÍ hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa einir að byggingum Laugardalsvallar og aðkomu áhugasamra fjárfesta sé þörf. „Eignarhaldið yrði hjá borginni, sem fengi auknar tekjur af byggingarmagninu en gerði afnotasamning til langs tíma við rekstraraðilina.“

Vísir/Daníel
Þórgnýr Thoroddsen, formaður ÍTR, segir ljóst að aðgerðirnar geti ekki farið fram án aðkomu ríkisins. Viðræður hafi hafist í fyrra og verði haldið áfram á næstu misserum.

Síðla árs 2005 var undirritað samkomulag ríkisins við KSÍ um 200 milljóna styrk ríkisins við framkvæmdir á stækkun og endurbætur á eldri stúku Laugardalsvallarins þar sem einnig er nú að finna skrifstofur og fræðslusetur KSÍ.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, sagði við það tilefni að algjört skilyrði að aðkomu ríkisins að verkefninu væri að Laugardalsvöllur yrði áfram þjóðarleikvangur bæði knattspyrnuíþróttarinnar hér á landi sem og frjálsíþróttanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×