Fótbolti

Enginn veit hvað er að Eyjólfi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Heimasíða Midtjylland
Knattspyrnumaðurinn Eyjólfur Héðinsson hefur ekki átt sjö dagana sæla síðustu tvo ár en miðjumaðurinn úr Breiðholtinu hefur glímt við nárameiðsli þennan tíma og nánast ekkert getað spilað með liðið Midtjylland sem er nú á toppi dönsku deildarinnar.

„Ég er búinn að vera meiddur í tvö, meira eða minna og það gengur ekkert að finna út úr þessum meiðslum," sagði Eyjólfur í viðtali við Sindra Sverrisson í Morgunblaðinu í dag.

„Ég er búinn að vera meiddur í náranum og með sömu einkenni allan þennan tíma. Ég er búinn að fara í tvær aðgerðir, hitta fullt af sérfræðingum, sjúkraþjálfurum og kírópraktorum og það klóra sér bara allir í hausnum," sagði Eyjólfur ennfremur í viðtalinu en hann á eftir rúmt ár af samningi sínum við Midtjylland.

Eyjólfur hefur leitað til sérfræðinga í Danmörku, Svíþjóð og á Íslandi. „Ég er ekki alveg búinn að gefast upp. Við erum alltaf að prófa nýjar aðferðir og við skulum sjá hverju sú nýjasta skilar," sagði Eyjólfur og talar um mikinn tilfinningarússíbana þegar ný aðgerð eða nýr læknir sem átti að bjarga öllu nær ekki þeim árangri sem hann vonaðist til.

Midtjylland er á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar með sjö stiga forskot á Randers og FCK en Eyjólfur hefur ekkert verið með á þessu tímabili.

Eyjólfur tók þátt í 10 af 33 leikjum á síðasta tímabili og skoraði 2 mörk á þeim 292 mínútum sem hann spilaði. Eyjólfur var þá í byrjunarliðinu í tveimur leikjum síðast á móti Vestsjaelland 7. október 2013 en hann skoraði þá í 2-2 jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×