Kári Jónsson, 17 ára bakvörður Hauka, er samkvæmt tölfræðinni aldrei betri en í Hertz-hellinum í Seljaskóla en strákurinn hefur átt sína tvo bestu leiki í úrvalsdeild karla í húsinu.
Kári skoraði 25 stig í gærkvöldi þegar Haukar unnu nauman 83-82 sigur á ÍR-ingum en Kári hitti úr 9 af 14 skotum sínum í leiknum (64 prósent).
Besti leikur Kára á síðustu leiktíð, hans fyrstu í úrvalsdeildinni, kom einnig í Seljaskólanum en hann skoraði þá 26 stig á tæpum 19 mínútum þegar Haukar unnu 113-87 sigur á ÍR.
Kári hefur nú spilað 31 leik í úrvalsdeildinni og skorað í þeim 314 stig eða 10,8 stig að meðaltali í leik.
Kári hefur skorað 51 stig í tveimur leikjum sínum í Seljaskóla eða 25,5 stig að meðaltali í leik. Hann hefur hitt úr 76 prósent skota sinna í húsinu þar af 10 af 13 skotum fyrir utan þriggja stiga línuna (77 prósent).
Kári er því að skora sextán fleiri stig að meðaltali í leik í Seljaskólanum en í öðrum íþróttahúsum sem hann hefur spilað í á úrvalsdeildarferlinum.
Flest stig Kára Jónssonar í einum leik í úrvalsdeild karla:
26 stig - á móti ÍR í Selaskóla 24. október 2013
25 stig - á móti ÍR í Selaskóla 4. desember 2014
20 stig - á móti Snæfelli í Stykkishólmi 16. október 2014
17 stig - á móti Fjölni á Ásvöllum 24. október 2014
17 stig - á móti KR í DHL-höllinni 24. nóvember 2014
17 stig - á móti Þór Þorlákshöfn á Ásvöllum 7. mars 2014
17 stig - á móti Njarðvík í Njarðvík 22. nóvember 2013
