Fótbolti

Suarez: Meira pláss á Englandi

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Suarez fagnar marki sínu fyrir Barcelona
Suarez fagnar marki sínu fyrir Barcelona vísir/getty
Framherjinn Luis Suarez sem gekk til liðs við Barcelona frá Liverpool í sumar segir framherja fá meira pláss á Englandi en á Spáni en Suarez skoraði fyrsta mark sitt fyrir Barcelona um síðustu helgi.

„Í ensku úrvalsdeildinni og gegn Liverpool liggja lið sjaldan til baka með nánast allt liðið. Það er alltaf pláss til að hlaupa í þar sem hægt er að taka andstæðinginn á,“ sagði Suarez við heimasíðu Barcelona.

„Varnarmennirnir eru sterkir, fljótari og þéttari á velli. Ég var vanur þeim. Hér eru þeir leiknari, vega hvern annan betur upp og leika nær hverjum öðrum. Þeir vita hversu hættulegt lið Barcelona er og stundum verður þetta mjög erfitt.“

Suarez skoraði nánast að vild fyrir Liverpool á síðustu leiktíð en hefur aðeins náð að skora eitt mark í deildinni í átta leikjum. Á móti hefur hann lagt upp næst flest mörk allra í liðinu þrátt fyrir að hefja tímabilið í leikbanni.

„Ég skora ekki mikið í augnablikinu en ég er viss um að með hjálp samherja minna munu mörkin byrja að flæða,“ sagði Suarez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×