Skoðun

Vegna þingsályktunartillögu um mænuskaða

Auður Guðjónsdóttir skrifar
Nú bíður afgreiðslu Alþingis þingsályktunartillaga um aðgerðir í þágu lækninga á mænuskaða. Tillagan var borin fram af Guðlaugi Þór Þórðarsyni alþingismanni og var studd af tuttugu öðrum þingmönnum. Í tillögunni felast tvö megin atriði. Í fyrsta lagi að ríkisstjórnin stuðli að því að stofnaður verði hvatningarsjóður undir merkjum Íslands sem veiti viðurkenningar fyrir vísindavinnu sem gagnast má sem innlegg í þróun lækningastefnu fyrir mænuskaða. Í öðru lagi að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að einu af þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem sett verða árið 2015 verði beint að lækningu skaða og sjúkdóma í taugakerfinu.

Bæði atriðin sem hér eru nefnd eru metnaðarfull og framsýn og í beinu framhaldi af þeirri vinnu sem stjórnvöld og Mænuskaðastofnun Íslands hafa nú þegar innt saman af hendi á alþjóðavettvangi.

Að lifa með reisn

Undanfarin misseri hefur Ban Ki moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sent þau boð til þjóða heims að hver og ein þeirra komi með hugmyndir að nýjum þróunarmarkmiðum undir því fororði að allar manneskjur eigi rétt á að lifa með reisn. Fátt er betur til þess fallið að ræna fólk reisn sinni en það að hafa ekki stjórn á líkama sínum eða huga. Áhersla á lækningu skaða og sjúkdóma í taugakerfinu er því grundvallaratriði sem á fullt erindi sem eitt af þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna frá 2015 til 2030. Fimmtán ár ættu að nægja stofnuninni til að hleypa af stokkunum átaki til stuðnings alþjóðlegu taugavísindasviði til betri skilnings á virkni taugakerfisins.

Greinarhöfundur biður alþingismenn og forseta Alþingis vinsamlegast um að afgreiða umrædda þingsályktunartillögu á yfirstandandi þingi og ríkisstjórnina að koma innihaldi hennar fljótt og vel í þann farveg sem hér er talað um.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×