Körfubolti

Dóttir fyrrum NBA-leikmanns spilar með kvennaliði Vals

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lee Mayberry í leik á móti Brian Shaw í Miami Heat.
Lee Mayberry í leik á móti Brian Shaw í Miami Heat. Vísir/Getty
Bandaríski bakvörðurinn Taleya Mayberry mun spila með liði Vals í seinni hluta Dominos-deild kvenna í körfubolta en Valsmenn hafa gert samning við þessa 23 ára gömlu stelpu sem útskrifaðist frá Tulsa-háskólanum.

Taleya Mayberry kemur í staðinn fyrir Joannu Harden sem yfirgaf Val þegar þrír leikir voru eftir af fyrri umferðinni en Harden var þriðji stigahæsti leikmaður fyrri umferðarinnar með 26,3 stig að meðaltali í leik.

Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, staðfesti komu Taleyu Mayberry við Vísi og segir að verið sé að vinna í því að fá leikheimild fyrir hana fyrir fyrsta leikinn á nýju ári sem verður gegn KR 7. janúar næstkomandi.  

Taleya Mayberry á frægan körfuboltapabba en faðir hennar Lee Mayberry spilaði 496 leiki í NBA-deildinni frá 1992 til 1999 og var með 5,1 stig og 3,6 stoðsendingar að meðaltali í þeim. Lee Mayberry spilaði fyrir Milwaukee Bucks (1992–1996) og Vancouver Grizzlies (1996-1999). Hann vann brons með bandaríska landsliðinu á HM í Argentínu 1990.

Taleya Mayberry átti flottan háskólaferil með Tulsa en hún endaði sem annar stigahæsti leikmaður skólans og komst líka upp í annað sætið í stoðsendingum og þá hafa aðeins tveir leikmenn Tulsa-skólaliðsins hafa stolið fleiri boltum.

Mayberry var með 15,3 stig, 3,5 fráköst, 3,3 stoðsendingar og 2,4 stolna bolta að meðaltali í 114 leikjum fyrir skólann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×