Fótbolti

Robben: Kannski hætti ég á næsta ári og kannski eftir tíu ár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arjen Robben skrifar eiginhandaráritanir í Sviss á mánudagskvöldið.
Arjen Robben skrifar eiginhandaráritanir í Sviss á mánudagskvöldið. vísir/getty
Arjen Robben, hollenski knattspyrnumaðurinn sem spilar með Bayern München í Þýskalandi, ætlar að spila fyrir Þýskalandsmeistarana svo lengi sem líkaminn leyfir.

Robben hefur verið á meðal bestu knattspyrnumanna heims undanfarin ár og unnið fjölda titla með Bayern auk þess sem hann vann brons með Hollandi á HM í Brasilíu í sumar.

Hollendingurinn var í liði ársins sem opinberað var á uppskeruhátíð FIFA á mánudagskvöldið, en Robben, sem er orðinn 31 árs, veit ekkert hvenær hann mun leggja skóna á hilluna.

„Ég er spurður æ oftar hvenær ég muni hætta vegna þess að ég er að eldast. Ég er samt mjög rólegur yfir þessu öllu,“ sagði Robben við fréttamenn.

„Á meðan líkaminn leyfir og ég nýt þess að spila fótbolta mun ég halda áfram. Kannski endist ég í eitt ár til viðbótar, kannski tvö og kannski tíu ár. Því eldri maður verður því betur þekkir maður líkamann sinn,“ segir Arjen Robben.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×