Fótbolti

Hjörtur Logi aftur til Svíþjóðar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hjörtur Logi hefur leikið níu landsleiki fyrir Ísland.
Hjörtur Logi hefur leikið níu landsleiki fyrir Ísland. mynd/heimasíða sogndal
Knattspyrnumaðurinn Hjörtur Logi Valgarðsson er orðinn leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins Örebro.

Hjörtur, sem er 26 ára Hafnfirðingur, kemur frá Sogndal sem féll úr norsku úrvalsdeildinni í fyrra. Hjörtur, sem leikur í stöðu vinstri bakvarðar, spilaði vel með Sogndal í fyrra og var á meðal stoðsendingahæstu leikmanna norsku deildarinnar.

Það verða því tveir Íslendingar í herbúðum Örebro á næstu leiktíð, en Eyjamaðurinn Eiður Aron Sigurbjörnsson er einnig samningsbundinn félaginu.

Hjörtur þekkir ágætlega til í Svíþjóð en hann lék með IFK Gautaborg á árunum 2011-2013.

Hjörtur hefur leikið níu A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Hann spilaði allan leikinn þegar Ísland bar sigurorð af Kanada, 2-1, í æfingaleik á Flórída 16. þessa mánaðar.

Örebro hafnaði í 6. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×