Fótbolti

Guðmundur tók lagið á dönsku og heillaði nýju samherjana upp úr skónum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðmundur Þórarinsson, Selfyssingurinn söngelski sem samdi við danska liðið Nordsjælland í byrjun árs, hlær að flestum nýliðavígslum ef þær tengjast því að spila eða syngja.

Guðmundur er, eins og flestir vita, frábær tónlistarmaður, en hann tók lagið fyrir nýju samherjana eftir spurningakvöld Nordsjælland í gærkvöldi. Liðið undirbýr sig nú af krafti fyrir seinni hluta tímabilsins sem hefst í lok mánaðarins.

Sjá einnig:Norðmenn hafa ekki fattað tónlistarhæfileika Gumma Tóta

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég syng á dönsku,“ sagði Guðmundur áður en hann hlóð í hugljúft lag einn upp á sviði aðeins vopnaður gítar. Hann fékk svo dúndrandi lófatak þegar hann hafði lokið sér af.

„Ekki nóg með að hann geti spilað fótbolta þá getur hann líka sungið. Þvílíkur klassi,“ skrifaði Mathias Hebo, samherji Guðmundar, um Selfyssinginn á Twitter.

Hann beindi svo spjótum sínum að hinum Íslendingunum í liðinu; Adam Erni Arnarsyni og markverðinum Rúnari Alex Rúnarssyni.

„Hvað með hina bræður mína? Adam Örn og Rúnar Alex. Geta allir á Íslandi sungið eins og Gummi Þórarins?“

Það stóð ekki á svari frá Rúnari sem sagði: „Auðvitað, maður!“ Adam var öllu hógværari og sagði: „Ég fer bara í kennslu hjá Gumma og tek þetta síðan.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×