Fótbolti

Slæmar fréttir fyrir Alfreð? | Danny Ings í viðræðum við Sociedad

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Moyes skammar hér Alfreð Finnbogason í leik Real Sociedad á dögunum.
David Moyes skammar hér Alfreð Finnbogason í leik Real Sociedad á dögunum. Vísir/EPA
Danny Ings, framherji Burnley, er byrjaður í viðræðum við spænska úrvalsdeildarfélagið Real Sociedad ef marka má heimildir Daily Mail en enska blaðið segir frá þessu í morgun.

Real Sociedad keypti íslenska landsliðsmanninn Alfreð Finnbogason síðasta sumar en okkar maður hefur ekki enn náð að skora í spænsku deildinni og þjálfarinn David Moyes er greinilega farinn að horfa í kringum sig til að styrkja sóknarleik liðsins.

Danny Ings hefur skorað níu mörk fyrir Burnley á tímabilinu og stóð sig mjög vel á móti Manchester United í síðustu viku. Það er vitað að  David Moyes hefur lengi verið hrifinn af enska framherjanum og Moyes virðist jafnframt ekki hafa mikla trú á íslenska landsliðsframherjanum.

Þessar fréttir gætu því þýtt það að Alfreð sé á útleið hjá Real Sociedad næsta sumar en hann hefur verið út í kuldanum hjá Moyes og markaleysið er heldur ekki að hjálpa til.

Danny Ings hefur verið að spila með 21 árs landsliði Englendinga en menn eru farnir að spá því að hann fái tækifæri með A-landsliðinu á næstu mánuðum. Daily Mail telur að Moyes ætli að reyna að ganga frá þessu sem fyrst áður en Ings verður enn eftirsóttari.

Ings hefur verið orðaður við lið Liverpool en leikmaðurinn er nú að velta því fyrir sér að fara til Spánar samkvæmt heimildum Daily Mail.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×