Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra kallar eftir því að lögð verði fram vantrauststillaga á hendur Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra. „Slíkt vantraust ætti að sjálfsögðu ekki að snúast um afstöðu hans til Evrópumála. Það hlyti alfarið lúta að gerræði hans gagnvart Alþingi,“ skrifar Þorsteinn Pálsson, á vefinn Hringbraut.
Þorsteinn segist ekki gera ráð fyrir öðru en að meirihlutinn myndi verja ráðherrann vantrausti. „En það er mikilvægt að skrá nöfn þeirra þingmanna á spjöld sögunnar sem þannig hyggjast styðja með atkvæði sínu að ráðherra geti með einu bréfi svipt Alþingi því ályktunarvaldi sem því er fengið með stjórnarskrá,“ skrifar hann.
Í pistlinum kallar hann einnig eftir því að skýrt verði hvort að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hafi lagt á ráðin um þessa aðför að Alþingi. „Mikilvægt er að forsetinn geri hreint fyrir sínum dyrum,“ skrifar hann.
Þorsteinn Pálsson kallar eftir vantrauststillögu á Gunnar Braga
Aðalsteinn Kjartansson skrifar
