Skoðun

Yfir himins ygglibrá

Jakob Bragi Hannesson skrifar
Það er góð líkamsrækt að ganga afturábak í snjóstormi og ófærð. Það kemur af sjálfu sér nú um stundir, og er náttúruleg líkamsrækt, sem reynir á skyn- og hreyfiþroska manna, auk almennrar líkamsvitundar og hreysti. Barátta Íslendingsins við veðuröflin er í anda ofurmennishugsunar Nietzsches: „Það sem drepur þig ekki gerir þig sterkari.“

Þetta er íslenskt heilkenni og höfum við Íslendingar átt flesta sterkustu menn heimsins miðað við höfðatölu. Almenn hreysti og djöfulgangur hefur komið okkur Íslendingum til hæstu metorða þar sem krafist er líkamsburðar. Hinir tröllauknu menn sem glímt hafa við náttúruöflin vissu þó að óvarkárni gagnvart þeim breytti þeim umsvifalaust í nátttröll.

Því miður er hugvit Íslendingsins mikill eftirbátur líkamshreystinnar. Á alþjóðavettvangi verðum við okkur að athlægi fyrir afdalahátt og þjóðernisrembu. Hin íslenska þjóðarvitund, sem er hinn dæmigerði framsóknarmaður, stenst illa tímans tönn. Til að samstilling hugar og líkama verði að veruleika, „Mens sana in corpore sano“, verðum við Íslendingar að fá að kjósa um inngöngu í E.S.B. og ryðja afdalahugsunarhætti pólitiskrar forpokunar burt.

Veðurofsanum sem gengið hefur yfir landið undanfarna mánuði má lýsa með eftirfarandi stöku:

Yfir himins ygglibrá

óravegu langa

éljaflákar úfnir á

ugglum veðra hanga.

(Sveinbjörn Björnsson (1855-1933), steinsmiður og skáld)

Íslenska þjóðarsálin er veðurbarin og lúin nú um stundir en má ekki sofna á verðinum. Við þurfum að losa okkur við íslensku nátttröllin á Alþingi og ríkisstjórn Íslands. „Blásum vind í seglin“, og látum „skært lúðra hljóma“. „Forðum okkur hættum frá“.

Kæru Íslendingar „Fljótið ekki sofandi að feigðarósi“, því þá granda ykkur „himins ygglibrár„ og „úfnir éljaflákar“.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×