James Harden og Russell Westbrook voru í aðalhlutverkum í leik Oklahoma City Thunder og Houston Rockets, þar sem gestirnir höfðu að lokum betur, 112-115, eftir hörkuleik.
Harden skoraði 41 stig fyrir Houston, tók sex fráköst og gaf sex stoðsendingar. Westbrook bauð hins vegar upp á enn eina þrennuna í vetur, en hann skoraði 40 stig, tók 11 fráköst og gaf 13 stoðsendingar. Enes Kanter átti einnig góðan leik fyrir OKC með 21 stig og 17 fráköst.
Meistarar San Antonio Spurs fóru illa með Golden State Warriors, topplið Vesturdeildarinnar, á heimavelli. Lokatölur 107-92, Spurs í vil en þetta var 17. sigur liðsins í síðustu 20 leikjum.
Kawhi Leonard fór á kostum í liði Spurs en hann skoraði 26 stig, tók fimm fráköst, gaf þrjár stoðsendingar og stal boltanum sjö sinnum.
Stephen Curry var stigahæstur í liði Golden State með 24 stig.
Þá sneri Paul George aftur á völlinn þegar Indiana Pacers vann 23 stiga sigur á Miami Heat á heimavelli, 112-89.
George, sem fótbrotnaði illa í æfingaleik með bandaríska landsliðinu síðasta sumar, spilaði í 15 mínútur og skoraði 13 stig. Argentínumaðurinn Luis Scola var stigahæstur í liði Indiana með 23 stig en hann tók auk þess 12 fráköst.
Úrslitin í nótt:
Oklahoma 112-115 Houston
Cleveland 99-94 Chicago
Indiana 112-89 Miami
San Antonio 107-92 Golden State
NY Knicks 101-91 Philadelphia
Sacramento 95-101 Utah
LA Lakers 78-106 LA Clippers