Fótbolti

Lærisveinar Rúnars lögðu norsku meistarana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Kristinsson og lærisveinar hans unnu sinn annan leik í norsku úrvalsdeildinni í dag.
Rúnar Kristinsson og lærisveinar hans unnu sinn annan leik í norsku úrvalsdeildinni í dag. vísir/valli
Sex leikir fóru fram í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Lærisveinar Rúnars Kristinssonar í Lilleström lögðu Noregsmeistara Molde að velli á heimavelli, 2-1.

Erling Knudtzon skoraði bæði mörk Lilleström á þriggja mínútna kafla í seinni hálfleik en þetta var annar sigur liðsins á tímabilinu.

Finnur Orri Margeirsson var að venju í byrjunarliði Lilleström og lék allan leikinn. Árni Vilhjálmsson var ekki leikmannahópi liðsins.

Jón Daði Böðvarsson skoraði seinna mark Viking sem vann 0-2 sigur á Haugesund á útivelli. Þetta var fyrsta mark Selfyssingsins á tímabilinu en hann kom inn á sem varamaður á 64. mínútu.

Indriði Sigurðsson og Steinþór Freyr Þorsteinsson voru báðir í byrjunarliði Viking en Björn Daníel Sverrisson er frá vegna meiðsla.

Guðmundur Kristjánsson og Matthías Vilhjálmsson voru í byrjunarliði Start sem gerði 1-1 jafntefli við Bodö/Glimt á heimavelli. Bæði mörkin komu á fyrstu átta mínútum leiksins.

Ingvar Jónsson sat allan tímann á varamannabekk Start sem er í 12. sæti deildarinnar með níu stig, jafnmörg og Lilleström.

Daníel Leó Grétarsson sat allan tímann á bekknum þegar Álasund og Sarpsborg 08 skildu jöfn, 2-2. Grindvíkingurinn ungi spilaði fyrsta leik Álasunds í deildinni en hefur ekki komið við sögu síðan þá. Aron Elís Þrándarson er enn á sjúkralistanum.

Þá vann Stabæk stórsigur á Sandefjord, 4-0, og Odd bar sigurorð af Strömsgodset með tveimur mörkum gegn engu.

Hannes Þór Halldórsson og félagar í Sandnes Ulf unnu 6-1 stórsigur á Fredrikstad á heimavelli í 1. deildinni. Hannes stóð allan tímann milli stanganna hjá Sandnes sem er í 3. sæti deildarinnar.

Úrslit dagsins í norsku úrvalsdeildinni:

Lilleström 2-1 Molde

Haugesund 0-2 Viking

Start 1-1 Bodö/Glimt

Álasund 2-2 Sarpsborg 08

Stabæk 4-0 Sandefjord

Odd 2-0 Strömsgodset




Fleiri fréttir

Sjá meira


×