Sport

Helgi bætti í kvöld heimsmetið í annað skipti í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Sveinsson ætlar sér að verja heimsmeistaratitilinn í október.
Helgi Sveinsson ætlar sér að verja heimsmeistaratitilinn í október. Vísir/AFP
Spjótkastarinn Helgi Sveinsson úr Ármanni ætlar heldur betur að eiga eftirminnilegt sumar en hann setti sitt annað heimsmet í ár á kastmóti FH í Krikanum í kvöld.

Helgi er að setja heimsmetið í spjótkasti í flokki F42 en hann missti vinstri fótinn árið 1999 og notast nú við gervifót frá Össur.

Helgi kastaði 57,36 metra í kvöld en hann hafði bætt heimsmetið í maímánuði þegar hann kastaði 54,62 metra á JJ móti Ármanns á Laugardalsvelli.

Líkt og á mótinu í maí þá setti Helgi þrjú met í einu með þessu kasti sem er að sjálfsögðu líka Íslandsmet og Evrópumet.

Helgi var að setja sitt þriðja Íslandsmet í sumar en hann hjó mjög nærri heimsmetinu á fyrsta útimóti hans í sumar sem var vormót HSK á Selfossi.

Helgi er ríkjandi Heims- og Evrópumeistari í greininni og hann er á fullu að undirbúa sig fyrir heimsmeistaramót fatlaðra í frjálsum sem fer fram í októbermánuði í Doha í Katar.


Tengdar fréttir

Helgi setti heimsmet

Spjótkastarinn Helgi Sveinsson úr Ármanni bætti í kvöld heimsmetið í spjótkasti í flokki F42 er hann keppti á JJ- móti Ármanns á Laugardalsvelli.

Kínverjinn fær í magann þegar hann sér þetta

Helgi Sveinsson byrjaði tímabilið eins vel þegar hann setja heimsmet í spjótkasti í flokki F42 á Laugardalsvelli í fyrrakvöld. Helgi ætlar sér stóra hluti í sumar og hefur ekki áhyggjur af því að hann sé að toppa fimm mánuðum fyrir HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×