Heimamaðurinn Andy Murray mætir Svisslendingnum Roger Federer í undanúrslitum Wimbledon-mótsins í tennis á föstudag. Viðureignin verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Báðir unnu leiki sína í fjórðungsúrslitum í dag á nokkuð sannfærandi máta. Murray, sem vann mótið árið 2013, sló Kanadamanninn Vasek Pospisil í þremur lotum, 6-4, 7-5 og 6-4, en viðureignin stóð yfir í rúmar tvær klukkustundir.
Pospisil lét þó Murray hafa fyrir hlutunum en Skotinn reyndist of sterkur fyrir Pospisil, sem var að spila í fjórðungsúrslitum á risamóti í fyrsta sinn á ferlinum.
Murray fær öllu erfiðara verkefni á föstudag en Federer virðist í frábæru formi. Hann vann Frakkann Gilles Simon í dag á aðeins 94 mínútum, 6-3, 7-5 og 6-2. Federer hefur spilað afar vel allt mótið en Simon varð í dag fyrsti maðurinn til að vinna uppgjafarlotu af Federer á þessu móti.
Federer er áttfaldur Wimbledon-meistari en hefur ekki unnið síðan 2012 er hann vann Murray í úrslitum. Federer komst í úrslit í fyrra en tapaði þá fyrir Novak Djokovic, efsta manni heimslistans.
Murray mætir Federer í undanúrslitum

Tengdar fréttir

Leikar æsast á Wimbledon
Fjórðungsúrslit í einliðaleik karla fara fram í dag. Undanúrslitin hjá konunum hefjast á morgun og þá hefjast beinar útsendingar á Stöð 2 Sport.