Enski boltinn

Deron Williams orðinn leikmaður Dallas

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Williams verður liðsfélagi Dirk Nowitzki hjá Dallas.
Williams verður liðsfélagi Dirk Nowitzki hjá Dallas. vísir/getty
Leikstjórnandinn Deron Williams er genginn í raðir Dallas Mavericks frá Brooklyn Nets.

Þetta eru góðar fréttir fyrir stuðningsmenn Dallas sem voru súrir eftir að miðherjinn DeAndre Jordan hætti við að semja við liðið eins og fjallað hefur verið um.

Næsta tímabil verður það tólfta hjá Williams í NBA-deildinni en hann var valinn númer þrjú í nýliðavalinu 2005 af Utah Jazz.

Williams, sem er 31 árs, lék með Utah til 2011 þegar honum var skipt til Brooklyn Nets, eða New Jersey Nets eins og liðið hét þá.

Williams, sem var í menntaskóla í Texas, tekur við leikstjórnadastöðunni hjá Dallas af Rajon Rondo sem er farinn til Sacramento Kings.

Dallas, sem féll úr leik fyrir Houston Rockets í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í vetur, teflir fram nokkuð breyttu liði á næsta tímabili en meðal leikmanna sem komnir eru til liðsins eru Wesley Matthews, Zaza Pachulia og Richard Jefferson, auk Williams.

Williams hefur þrívegis verið valinn til þátttöku í Stjörnuleiknum auk þess sem hann var valinn í annað úrvalslið NBA 2008 og 2010. Þá vann leikstjórnandinn til gullverðlauna með bandaríska landsliðinu á Ólympíuleikunum 2008 og 2012.

Williams er með 17,0 stig, 3,2 fráköst og 8,5 stoðsendingar að meðaltali í leik á ferlinum. Hann er einn fimm leikmanna sem eru að spila í NBA-deildinni í dag sem hafa skorað a.m.k. 12.000 stig og gefið 6000 stoðsendingar á ferlinum. Hinir eru Chris Paul, Kobe Bryant, Andre Miller og LeBron James.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×