Sport

Eygló Ósk setti Íslandsmet og komst í undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eygló Ósk Gústafsdóttir.
Eygló Ósk Gústafsdóttir. Vísir/Andri Marinó
Ægiringurinn Eygló Ósk Gústafsdóttir tryggði sér í morgun sæti í undanúrslitum í 200 metra baksundi á Heimsmeistaramótinu í 50 metra laug í Kazan í Rússlandi.

Eygló Ósk synti 200 metrana á 2:09.16 mínútum og bætti Íslandsmet sitt síðan á Íslandsmeistaramótinu í apríl þegar hún synti þetta sund á 2:09.36 mínútum.

Eygló Ósk náði fjórða besta tímanum í undanrásunum og gerir sér vonir um að komast í úrslit þegar undanúrslitin fara fram í kvöld.

Eygló Ósk var 1.99 sekúndum á eftir hinni ungversku Katinku Hosszu sem náði besta tímanum en bandaríska sundkonan Missy Franklin varð önnur og hin kanadíska Dominique Bouchard var með þriðja besta tímann.  

Þetta er önnur greinin á mótinu þar sem Eygló Ósk kemst í gegnum undanrásirnar og í undanúrslitin en því náði hún einnig í 100 metra baksundi.

Eygló Ósk varð önnur í sínum riðli þar sem hún kom í mark á nákvæmlega sama tíma og sautján ára rússnesk sundkona, Daria Ustinova. Þær urðu síðan jafnar í fjórða til fimmta sæti í undanrásunum.

Þetta er annað Íslandsmet Eyglóar á heimsmeistaramótinu en hún setti einnig Íslandsmet í 100 metra baksundi þar sem hún varð fimmtánda.

Bæði Eygló ósk og Hrafnhildur Lúthersdóttir hafa þar með komist í undanúrslit í tveimur greinum á þessu eftirminnilega heimsmeistaramóti fyrir íslensk sundfólk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×