Sport

Bætti 28 ára heimsmeistaramótsmet

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dafne Schippers.
Dafne Schippers. Vísir/Getty
Hollendingurinn Dafne Schippers tryggði sér heimsmeistaratitilinn í 200 metra hlaupi kvenna á HM í frjálsum í Peking í dag og það þurfti eitt besta hlaup sögunnar til að vinna gullið.

Dafne Schippers sem lagði áður áherslu á sjöþraut fór að einblína meira á það að keppa í spretthlaupum. Hún sér ekki eftir því í dag enda búin að landa heimsmeistaragulli.

Schippers kom í mark á 21,63 sekúndum sem er þriðji besti tími sögunnar. Þetta var magnað hlaup en það leit ekki út fyrir hollenskan sigur um mitt hlaup.

Dafne Schippers bætti með þessu 28 ára heimsmeistaramótsmet hinnar austur-þýsku Silke Gladisch-Möller frá því á HM í Róm 1987. Gladisch-Möller hljóp þá á 21,74 sekúndum.

Dafne Schippers var líka ekki langt frá heimsmeti Florence Griffith-Joyner frá því á Ólympíuleikunum í Seoul 1988. Griffith-Joyner hljóp þá á 21,34 sekúndum.

Dafne Schippers var aðeins á eftir um mitt hlaup en átti frábæran endasprett. Jamaíkastelpurnar Elaine Thompson og Veronica Campbell-Brown frá Jamaíka komu í næstu sætum.

Elaine Thompson kom í mark í öðru sæti á 21,66 sekúndum sem hefði líka verið nýtt mótsmet og er fimmti besti tími sögunnar.

Schippers stolt er metið var staðfest.Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×