Sport

Ásdís með tvö ógild köst og er úr leik á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásdís Hjálmsdóttir.
Ásdís Hjálmsdóttir. Vísir/EPA
Ásdís Hjálmsdóttir náði sér ekki á strik í dag í undankeppni í spjótkasti kvenna á heimsmeistaramótinu í Peking í Kína.

Ásdís Hjálmsdóttir gerði tvisvar ógilt og besta kast hennar var upp á 56,72 metra sem er nokkuð frá hennar besta.

Ásdís endaði í fjórtánda sæti í sínum riðli og í 29. sæti af 32 keppendum í spjótkasti kvenna.

Ásdís hefði þurft að kasta 62,22 metra til þess að komast í úrslitin en besti árangur hennar á árinu er kast upp á 62,14 metra í maí.  Íslandsmet hennar frá því á Ólympíuleikunum í London 2012 er 62,77 metrar.

Ásdís kastaði seint og þurfti að horfa þolinmóð á hverja konuna á fætur annarri ná mjög góðum kostum.  

Hin kínverska Lingwei Li kastaði meðal annars 65,07 metra í fyrsta kasti í riðli Ásdísar og tryggði sér um leið sæti í úrslitunum.

Ásdís var fimmtánda í röðinni í sínum riðli og þar voru tíu þegar búnar að kasta yfir 62 metra í báðum riðlum þegar kom að henni.

Ásdís kastaði 56,72 metra í fyrsta kasti og var þá í ellefta sæti í sínum riðli eftir fyrstu umferð. Tvær tryggðu sig áfram í fyrstu umferðinni, Lingwei Li frá Kína og Elizabeth Gleadle frá Kanada.

Ásdís gerði síðan ógilt í öðru kasti sínu og fyrrnefnt kast kom henni því ekki ofar en í tólfta sæti í riðlinum eftir tvær umferðir og þar með í 27. sæti samanlagt. Barbora Spotakova kastaði 65,02 í síðasta kasti annarrar umferðarinnar og komst með því áfram.

Ásdís átti síðan lokakastið í þriðju og síðustu umferðinni þar sem hún vissi að ekkert nema risakast myndi koma henni áfram. Ásdís gerði hinsvegar ógilt og er úr leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×