Sport

Bolt sekúndubroti á undan Gatlin í úrslitunum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Usain Bolt.
Usain Bolt. Vísir/Getty
Usain Bolt kom fyrstur í mark í úrslitum 100 metra hlaups karla á HM í frjálsum sem fer fram í Peking þessa dagana. Kom hann í mark á 9,79 sem var besti tími hans á árinu.

Gatlin og Bolt komust örugglega í úrslitin fyrr í dag en Bolt kom í mark á 9,96 sekúndum á meðan Gatlin kom í mark á 9,77 sekúndum. Byrjaði Bolt hlaupið illa í undanúrslitunum og skaust hann ekki fram úr keppinautum sínum fyrr en undir lok hlaups.

Var mikil pressa á Gatlin fyrir hlaupið en hann átti fimm bestu tíma ársins í 100 metra hlaupi karla. Var talið að þetta yrði einvígi milli hans og Bolt. Bolt átti titil að verja en hann var ríkjandi Ólympíu- og Heimsmeistari.

Bolt náði mun betri byrjun í úrslitahlaupinu heldur en í undanúrslitunum og náði taka fram úr Gatlin strax á upphafmetrum hlaupsins. Þeir voru hnífjafnir allt hlaupið en Bolt kom í mark sekúndubroti á undan Gatlin og tryggði sér með því gullverðlaunin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×