
Kaj-Tore starfar hjá Eimskip í Tromsö og er hingað kominn í karlaferð með vinnufélögunum yfir helgi.
„Í gærkvöldi borgaði ég 200 þúsund krónur á veitingahúsi og það finnst mér alls ekki mikið enda vorum við ellefu saman,“ segir Kaj-Tore og bendir á að vegna lækkandi heimsmarkaðsverðs á olíu hafi norska krónan lækkað um þrjátíu prósent. „Það er samt enn ódýrara í öðrum löndum en þetta þýðir þó að fari ég með fjölskylduna til Flórída kostar það tíu þúsund dollurum meira en áður.“

„Við tókum minnstu gerð af bílaleigubíl en hann kostaði samt 700 evrur sem okkur finnst mjög dýrt. Flest allt hér er mun dýrara en heima en við vorum reyndar búnar að sjá það á netinu. Reyndar sýnist mér bensínið hér ekki svo dýrt miðað við í Þýskalandi,“ segir Carina.

„Hér er auðvitað allt mun dýrara en heima en við vorum við því búin,“ segir Denys sem kveðst ekki sjá mun á verðlaginu á Íslandi nú og fyrir tveimur árum.

„Ég var hér í hópferð fyrir átta árum þar sem ég þurfti ekki að borga mat og slíkt en nú er ég hérna á eigin vegum með konunni minni og þá finnur maður betur fyrir hversu dýrir hlutirnir eru hér en við vissum það svo sem fyrirfram,“ segir Dmitriy sem kveðst hafa vissan skilning á háu verðlagi á Íslandi.
„Níutíu prósent af vörum í búðum hér virðast vera innfluttar og það kostar sitt. En það er eitt sem ég skil alls ekki. Ísland er eyja umkringd hafi og í því er nóg af fiski. Hvers vegna er fiskur hér þá svona svakalega dýr? Ég næ því bara ekki,“ segir Dmitriy Avevyanov.