Leikmenn Packers höfðu unnið báða leiki sína fram að leik gærdagsins en Kansas City Chiefs tapaði á útivelli gegn Denver Broncos í síðustu umferð eftir sigur á Houston Texans í fyrstu umferð.
Rodgers hóf leikinn með látum og kastaði fyrir tveimur snertimörkum strax í fyrsta leikhluta og alls þremur snertimörkum í fyrri hálfleik.
Gestirnir frá Kansas City Chiefs áttu í töluvert meiri vandræðum í sóknarleiknum en tókst að komast á blað með snertimarki frá Jamaal Charles í öðrum leikhluta en Green Bay Packers leiddi 24-7 í hálfleik.

Green Bay Packers skoraði snertimark í fjórða leikhluta sem gerði út um leikinn. Átti Rodgers stutta sendingu á Randall Cobb sem skoraði snertimark, sitt þriðja í leiknum og fimmta snertimarkssending Rodgers í leiknum.
Green Bay hefur unnið fyrstu þrjá leiki tímabilsins en liðið mætir vængbrotnu liði San Fransisco 49ers á útivelli í næstu umferð á meðan leikmenn Kansas City Chiefs eiga fyrir höndum erfiðan leik gegn Cincinnatti Bengals.
Hægt er að sjá allt það helsta úr leiknum hér, bestu tilþrif Rodgers í leiknum hér og tilþrif Jamaal Charles hér.