Körfubolti

Þjálfari NBA-meistaranna þarf að taka sér frí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve Kerr í leik með Golden State Warriors liðinu í fyrra.
Steve Kerr í leik með Golden State Warriors liðinu í fyrra. Vísir/Getty
Steve Kerr gerði Golden State Warriors að NBA-meisturum á sínu fyrsta ári sem aðalþjálfari í deildinni en fyrsta sumarið sem NBA-meistaraþjálfari hefur reynst honum erfitt.

Steve Kerr þurfti að gangast undir tvær aðgerðir á baki eftir að hafa slasað sig í leik fimm í lokaúrslitum NBA-deildarinnar á móti Cleveland Cavaliers. Fyrri aðgerðin var 28. júlí og sú síðari 4. september.

Steve Kerr var hinsvegar mættur til starfa hjá Golden State Warriors en undirbúningstímabilið hófst í þessari viku. Þegar á reyndi þá sá Kerr hinsvegar að það besta í stöðunni væri að gefa sér lengri tíma til að jafna sig á aðgerðinni.

„Ég áttaði mig á því eftir fyrstu tvo daga æfingabúðanna að það rétta í stöðunni væri að stíga til baka og einbeita mér að fullu að endurhæfingunni svo að ég verði orðinn góður þegar tímabilið byrjar," sagði Steve Kerr í fréttatilkynningu til ESPN.

Steve Kerr ákvað því að taka sér frí á næstunni og mun því ekki koma meira að þjálfun Golden State liðsins á undirbúningstímabilinu sem mun taka um fjórar vikur.

Hvorki forráðamenn Golden State Warriors né Steve Kerr eru tilbúnir að gefa það út hvenær þjálfarinn kemur aftur út leyfinu en á meðan hann er í burtu þá mun Luke Walton sinna starfi aðalþjálfara.

Það er þó almennt búist við því að Steve Kerr verði kominn til starfa þegar Golden State Warriors hefur tilvörn sína á móti New Orleans Pelicans 27. október næstkomandi.

Golden State Warriors vann 67 af 82 deildarleikjum og 16 af 21 leik í úrslitakeppninni á fyrsta tímabili Steve Kerr. Steve Kerr varð þarna NBA-meistari í sjötta sinn en hann vann titilinn fimm sinnum sem leikmaður Chicago Bulls (3, 1996–1998) og San Antonio Spurs (2, 1999 og 2003).

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×