Körfubolti

Derrick Rose verður bara frá í tvær vikur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Derrick Rose með liðsfélaga sínum Tony Snell.
Derrick Rose með liðsfélaga sínum Tony Snell. Vísir/EPA
Derrick Rose fór í aðgerð í gær en ólíkt aðgerðum síðustu ára þá verður þessi óheppni leikstjórnandi Chicago Bulls ekki lengi frá að þessu sinni.

Rose fékk slæmt olnbogaskot á æfingu á þriðjudaginn sem varð til þess að það kom brot í vinstri augnbotninn. Rose lagðist á skurðarborðið daginn eftir og samkvæmt AP-fréttastofunni þá heppnaðist aðgerðin vel.

Derrick Rose ætti að vera kominn á fullt eftir tvær vikur eða hálfum mánuði fyrir fyrsta leik tímabilsins sem er á móti Cleveland Cavaliers 27. október næstkomandi.

Venjan er að fólk sé lengur frá eftir svona meiðsli en það má búast við því að Rose spili með grímu í upphafi tímabilsins.

Meiðslin þýða þó að Derrick Rose missir af stórum hluta af undirbúningstímabilinu sem er aldrei gott sérstaklega fyrir leikmann sem er búinn að vera mikið frá síðustu ár.

Derrick Rose hefur bæði slitið krossband og rifið liðþófa undanfarin ár og það hefur lítið gengið upp hjá kappanum síðan að hann var kosinn besti leikmaður NBA-deildarinnar tímabilið 2010-11.

Rose missti af öllu 2012-13 tímabilinu og spilaði aðeins tíu leiki tímabilið á eftir. Tölfræðingar NBA-deildarinnar voru fljótir að bera hann saman við Tim Duncan.

Derrick Rose hefur misst af 103 leikjum á síðustu tveimur tímabilum en Tim Duncan hefur aðeins misst af samtals 97 leikjum á sínum átján tímabila ferli.

Chicago Bulls vann 50 leiki á síðustu leiktíð en datt út úr úrslitakeppninni fyrir Lebron James og félögum í Cleveland Cavaliers. Liðið sjálft hefur lítið breyst milli tímabila en Fred Hoiberg tók við þjálfuninni af Tom Thibodeau.

NBA

Tengdar fréttir

Meiðslamartröð Rose heldur áfram: Enn ein aðgerðin

Derrick Rose, leikstjórnandi Chicago Bulls, er enn á ný á leið á skurðarborðið eftir að hafa meiðst á andliti á fyrsta degi undirbúningstímabilsins. Rose hefur verið meira eða minna meiddur síðan að hann var kosinn besti leikmaður deildarinnar 2010-11.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×