Skjálftinn fannst á stóru svæði í Afganistan, Indlandi og Pakistan. Vitað er að fjórir hafi látið lífið í norðurhluta Pakistan. Þar að auki þykir líklegt að jarðskjálftinn hafi valdið skriðum. Svæðið þar sem skjálftinn varð er mjög dreifbýlt.
Í fyrstu var skjálftinn talinn hafa verið 7,7 stig en það hefur nú verið fært niður í 7,5. Hann varð á rúmlega 200 kílómetra dýpi samkvæmt Jarðvísindastofnun Bandaríkjanna.
AP fréttaveitan segir að símar virki ekki og að víða sé rafmagnslaust í Afganistan. Þó hafi borist fregnir af mannfalli frá því svæði þar sem miðja skjálftans var.
Forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, segist hafa fyrirskipað að tjón verði kannað eins fljótt og auðið er.
I have asked for an urgent assessment and we stand ready for assistance where required, including Afghanistan & Pakistan.
— Narendra Modi (@narendramodi) October 26, 2015
Stórir skjálftar eru algengir á svæðinu þar sem Indlandsflekinn er á leið inn í Asíuflekann. Árið 2005 létu rúmlega 75 þúsund manns lífið í jarðskjálfta í Kasmir og fyrr á þessu ári létust um níu þúsund mann sí jarðskjálfta í Nepal. Tæplega milljón heimili skemmdust eða eyðilögðust í þeim jarðskjálfta.
Sérfræðingar segja heppilegt að miðja skjálftans sé á eins miklu dýpi og raunin sé.
Upplýsingar um tjón og mannfall munu taka langan tíma að berast til yfirvalda og fjölmiðla, þar sem svæðið er erfitt yfirferðar og mörg einöngruð þorp eru þar.