Fótbolti

Dýrkeypt að hvíla Jakob í upphafi fjórða | Borås tapaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson í leik með íslenska landsliðinu.
Jakob Örn Sigurðarson í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Valli
Jakob Örn Sigurðarson og félagar í Borås töpuðu toppslagnum á móti Södertälje Kings í uppgjöri tveggja taplausra liða í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Södertälje Kings vann á endanum tíu stiga sigur á Borås, 75-65, en jafnt var á flestum tölum fram í fjórða leikhluta.

Södertälje Kings lagði grunninn að sigri sínum með því að skora fjórtán fyrstu stigin í lokaleikhlutanum eftir að Borås var með eins stigs forystu fyrir hann.

Leikur Borås hrundi í lokin og það hafði ekki góð áhrif að Jakob settist á bekkinn í upphafi fjórða leikhlutans.

Jakob Örn Sigurðarson var með 16 stig, 3 stoðsendingar og  3 fráköst í leiknum en hann hitti úr 2 af 6 þriggja stiga skotum sínum og öllum sex vítunum. Jakob var stigahæstur í sínu liði.

Jakob skoraði fimm af fyrstu níu stigum Borås-liðsins í leiknum en Borås náði mest sjö stiga forskoti í fyrsta leikhlutanum, 14-7. Staðan var hinsvegar jöfn, 18-18, við lok hans.

Borås og Södertälje skiptust á að vera með forystuna í öðrum leikhlutanum en Södertälje var einu stigi yfir í hálfleik, 37-36.

Borås skoraði fjögur fyrstu stig seinni hálfleiksins og komst í 40-37 en þá tók við 8-0 sprettur Södertälje-manna.

Borås svaraði strax með tveimur þriggja stiga körfum og komst aftur yfir, 46-45. Jakob skoraði annan þristinn og átti stoðsendinguna fyrir hinn.

Spennan hélst út leikhlutann en Borås var með eins stigs forskot fyrir lokaleikhlutann, 59-58.

Jakob byrjaði fjórða leikhlutann á bekknum en Södertälje skoraði sjö fyrstu stigin í honum og komst í 65-59 eftir aðeins þriggja mínútna leik.

Skaðinn var hinsvegar skeður og Södertälje skoraði á endanum 16 stig í röð áður en Borås komst á blað í lokaleikhlutanum. Jakob braut loksins ísinn með því að skora úr tveimur vítum eftir rúmlega sjö mínútna leik.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×