Körfubolti

Dramatík í Charlotte: Porzingis hélt sig hafa skorað flautukörfu og unnið leikinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lettneski nýliðinn Kristaps Porzingis hefur byrjað vel með New York Knicks í NBA-deildinni, en eins og Vísir greindi frá í gær er hann að troða sér inn í hjörtu stuðningsmanna liðsins.

Porzingis var sekúndubroti frá því að slá enn frekar í gegn í nótt þegar hann hélt sig hafa skorað sigurkörfu um leið og leiktíminn rann út gegn Charlotte Hornets.

Sjá einnig:Níu sigrar í röð hjá meisturunum | Myndbönd

Charlotte komst yfir, 95-93 þegar 0,4 sekúndur voru eftir af leiknum, en liðið setti upp flott leikkerfi úr innkasti og skilaði Cody Zeller boltanum ofan í körfuna.

Tveimur sekúndubrotum var bætt við fyrir lokasóknina hjá Knicks. Boltanum var kastað inn á hinn 221cm háa Kristaps Porzingis sem setti niður þrist af löngu færi og fagnaði eðlilega vel og innilega með liðsfélögum sínum.

Þegar dómararnir skoðuðu upptökuna aftur kom í ljós að Lettinn var sekúndubroti frá því að sleppa boltanum áður en leiktíminn rann út og breyttist því hlátur í grátur hjá gestunum frá New York á sama tíma og allt varð vitlaust hjá leikmönnum og stuðningsmönnum Charlotte.

Porzingis átti annars fínan leik og skoraði tíu stig og tók fimmtán fráköst.

Þessar dramatísku lokasekúndur má sjá í spilaranum hér að ofan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×