„Húsið er í tætlum,“ segir Elísabet Þorvaldsdóttir einn af eigendum veitingavagns við Seljalandsfoss sem splundraðist í óveðrinu sem fór yfir landið í gær.
Tvenn hjón komu að rekstri vagnsins sem var opnaður í júní árið 2013, Elísabet Þorvaldsdóttir og eiginmaður hennar Heimir Hálfdánarson og Kristín Guðbjartsdóttir og Atli Már Bjarnason.
Sjá einnig: Pylsuvagn með minjagripi opnaður við Seljalandsfoss
Elísabet er á staðnum og eru eigendurnir í þessum töluðum orðum að hreinsa upp brakið af veitingavagninum. „Það er okkar forgangsverkefni núna að tína upp og koma þessu í skjól svo það verði ekki tjón á öðrum mannvirkjum sem þetta getur fokið á.“
Hún segir óljóst um framhald á rekstri þeirra, erfitt sé að meta tjónið að svo stöddu. „Við erum bara í því að reyna að tína saman. Það verður bara að koma í ljós hvað verður í framhaldinu.“
Ekki er veðurathuganastöð við Seljalandsfoss en þó í grennd við hann. Til dæmis að Steinum þar sem meðalvindhraði var mestur í gær 24 metrar á sekúndu um sex leytið í gærkvöldi og náðu hviður allt að 52 metrum á sekúndu.
