Fótbolti

Valencia krækti í stig gegn Barcelona á lokamínútum leiksins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Suarez fagnar hér marki sínu í kvöld
Suarez fagnar hér marki sínu í kvöld Vísir/Getty
Valencia krækti í eitt stig í 1-1 jafntefli gegn Barcelona á heimavelli í kvöld en þetta var fyrsti leikur liðsins undir stjórn Gary Neville.

Neville sem tók við starfinu á dögunum var þó ekki á hliðarlínunni í kvöld en hann var mættur í stúkuna til þess að fylgjast með leiknum.

Börsungar sem höfðu unnið átta leiki í röð í öllum keppnum voru mun sterkari aðilinn í leiknum og komust verðskuldað  yfir í upphafi seinni hálfleiks með marki frá Luis Súarez.

Var þetta mark númer 12 í síðustu 9 leikjum hjá Suárez en hann virtist vera rangstæður í aðdraganda marksins og voru varnarmenn Valencia gríðarlega ósáttir að það hafi fengið að standa.

Stuttu fyrir lok venjulegs leiktíma var það hinn ungi Santi Mina sem skoraði jöfnunarmark Valencia eftir góðan undirbúning Paco Alcacer. Liðin fengu bæði tækifæri til þess að stela sigrinum undir lok leiksins en þurftu að sætta sig við jafntefli.

Barcelona er áfram á toppi spænsku deildarinnar en er aðeins með tveggja stiga forskot á Atletico Madrid að loknum leikjum dagsins eftir 2-0 sigur Atletico á Granada í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×