Fótbolti

Messi og Neymar verða líklega báðir með í úrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Neymar.
Lionel Messi og Neymar. Vísir/Getty
Spænskir fjölmiðlar hafa heimildir fyrir því að stórstjörnurnar Lionel Messi og Neymar verði með í úrslitaleiknum í heimsmeistarakeppni félagsliða á sunnudaginn.

Barcelona komst í úrslitaleikinn í gær með 3-0 sigri á kínverska liðinu Guangzhou en Messi eða Neymar voru hvorugir með í þeim leik.

Neymar sat allan tímann á bekknum en hann er að koma til baka eftir meiðsli. Messi veiktist aftur á móti skyndilega rétt fyrir leik og var fluttur á sjúkrahús.

Spænska blaðið Sport segir frá því morgun að það sé bjartsýni innan herbúða Börsunga að Lionel Messi verði búinn að ná sér fyrir úrslitaleikinn þar sem Barcelona mætir einmitt löndum hans í River Plate.

Messi hefur ekki æft síðustu daga vegna veikindanna en hann skrifaði inn á fésbókarsíðu sína í gær að hann hefði verið mjög pirraður yfir að missa af undanúrslitaleiknum en vonist jafnfram að vera með á sunnudaginn.

Marca skrifar um stöðuna á Neymar og að hann hafi fengið grænt ljós á það að taka þátt í úrslitaleiknum.

Barcelona þurfti ekki mikið á þeim Lionel Messi og Neymar að halda í undanúrslitaleiknum því þar skoraði Úrúgvæmaðurinn Luis Suarez öll þrjú mörkin.

MSN, Lionel Messi, Luis Suarez og Neymar hafa þegar skorað saman 139 mörk í öllum keppnum á árinu og það væri vel við hæfi að þeir bættu við mörkum og hjálpuðu Barcelona að vinna fimmta titil sinn á árinu 2015.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×