Körfubolti

Kristófer með 90 prósent skotnýtingu og tvöfalda tvennu | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristófer Acox í leik með íslenska landsliðinu á Smáþjóðaleikunum.
Kristófer Acox í leik með íslenska landsliðinu á Smáþjóðaleikunum. Vísir/Stefán
Kristófer Acox var stigahæstur hjá Furman skólanum í nótt þegar liðið vann öruggan 94-46 sigur á Bluefield í bandaríska háskólakörfuboltanum.

Kristófer Acox skoraði 19 stig og tók 10 fráköst á þeim 25 mínútum sem hann spilaði í leiknum. 4 af 10 fráköstum hans voru sóknarfráköst.

Þetta var í fyrsta sinn sem Kristófer er stigahæstur hjá Furman á þessu tímabili en hann er með 8,0 stig og 6,3 fráköst að meðaltali á 20,9 mínútum í leik.

Kristófer og félagar hans fóru mikinn inn í teig í leiknum þar sem þeir skoruðu 52 stig á móti 8. Kristófer skoraði 18 af stigum sínum inn í teig.

Kristófer klikkaði bara á einu skoti allan leikinn og það skot var fyrir utan þriggja stiga línuna.

Kristófer hitti úr 9 af 10 skotum sínum sem gerir 90 prósent skotnýtingu. Hann hitti úr sjö síðustu skotum sínum í leiknum.

Kristófer hefur hitt úr 68 prósent skota sinna á í tíu leikjum á tímabilinu en fyrrnefnt þriggja stiga skot var hans fyrsta og eina á tímabilinu.

Furman-liðið hefur nú unnið 6 af 10 leikjum sínum á tímabilinu. Hér fyrir neðan má sjá flottustu tilþrifin frá leiknum og þar má sjá Kristófer í góðum gír.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×