Körfubolti

Martin valinn besti leikmaður vikunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. Vísir/Valli
Íslenski landsliðsmaðurinn Martin Hermannsson var kjörinn besti leikmaður vikunnar í NEC-deildinni í bandaríska háskólakörfuboltanum. Þetta er í fyrsta sinn sem hann fær þessi verðlaun í vetur en hann fékk þau einnig í fyrra.

Martin var aðalmaðurinn á bak við glæsilegan sigur LIU Brooklyn á Incarnate Word en sá leikur var spilaður í Barclays Center, heimahöll NBA-liðsins Brooklyn Nets.

Martin skoraði 18 stig í leiknum sem LIU Brooklyn vann 66-59. Hann skoraði ellefu af stigum sínum eftir hálfleik og var einnig með þrjár stoðsendingar og tvo stolna bolta.

Martin er sjötti stighæsti leikmaðurinn í NEC-deildinni með 14,9 stig í leik en hann er einnig inn á topp tíu í stoðsendingum (5. sæti með 3,9 í leik), vítanýtingu (4. sæti með 84,9 prósent vítanýtingu), stolnum boltum (8. sæti með 1,4 í leik) og í stoðsendingum á tapaða bolta  (3. sæti með 1,70 stoðsendingar á hvern tapaðan bolta).

Martin og félagar spila á morgun á móti UMass-skólanum. Það er síðasti leikur liðsins á móti skóla utan deildarinnar en svo tekur við hörð barátta við hin liðin í NEC-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×