Körfubolti

Kínverjar elska Stephon Marbury | Fær safn tileinkað sér í Peking

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephon Marbury.
Stephon Marbury. Vísir/Getty
Körfuboltamanninn Stephon Marbury þekkja margir síðan að hann spilaði í NBA-deildinni frá 1996 til 2009 en hann hefur átt mjög farsælan körfuboltaferil í Kína síðan að hann yfirgaf NBA-deildina fyrir sex árum.

Marbury er orðinn svo stór í Kína að það var ekki nóg fyrir Kínverjana að reisa styttu af honum og setja mynd af honum á frímerki. Það nýjasta í aðdáun þeirra er sérstakt safn helgað Stephon Marbury.

Safnið er í Peking og er um 28 fermetrar að stærð. Marbury mætti á opnunina en safnið verður líklega ekki opnað fyrir almenning fyrr en eftir jól.

Hinn 38 ára gamli Marbury er enn að skila frábærum tölum í kínversku deildinni. Hann var með 29,7 stig, 4,8 fráköst og 5,7 stoðsendingar að meðaltali í lokaúrslitunum á síðasta tímabili og var þá kosinn bestur þegar lið hans, Endurnar frá Peking unnu titilinn.

Marbury hefur unnið kínverska titilinn þrisvar á síðustu fjórum árum en þetta var í fyrsta sinn sem hann var kosinn besti leikmaður lokaúrslitanna.

Stephon Marbury skoraði 19,3 stig og gaf 7,6 stoðsendingar í 846 leikjum sínum í NBA-deildinni og var tvisvar valinn í Stjörnuleikinn og tvisvar í þriðja úrvalslið tímabilsins.

Marbury var kallaður Starbury af mörgum af því að honum gekk illa að spila fyrir liðið og var mjög upptekinn af sjálfum sér inn á vellinum. Svo fór að hann hrökklaðist úr deildinni en fann sér samanstað í Kína.

Marbury er með 18,5 stig að meðaltali fyrir Endurnar á þessu tímabili en liðið hefur unnið 13 af fyrstu 20 leikjum sínum.

Styttan af Marbury var sett upp árið 2012 og er fyrir utan íþróttahöllina. Frímerkið með mynd af honum var gefið út í apríl síðastliðnum.

Marbury ætlar að búa áfram í Kína eftir að ferlinum lýkur og hefur sett stefnuna á það að þjálfa kínverska landsliðið í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×