„Íslensk náttúra hefur lagt grunninn að öflugri ferðaþjónustu, sem nú skapar meiri gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið en nokkur önnur atvinnugrein,“ segir í tilkynningu á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í gær. Í tilkynningunni segir enn fremur að ráðist sé í þessar aðgerðir til að stemma stigu við mikilli ásókn ferðamanna á viðkvæma staði í náttúrunni og til þess að gera ferðaþjónustuna sem öflugasta.
Þeir staðir sem mest fá eru Skaftafell, sem fær 160 milljónir, og Þingvellir, sem fá 156,5 milljónir. Aðrir staðir fá mun minna. Dimmuborgir eru í þriðja sæti og fá 38,5 milljónir. Samtals hljóta þeir ellefu staðir sem mest fá rúmlega 605 milljónir en það er um 71 prósent heildarfjármagnsins. Auk staðanna sem fjármagn fá til umbóta verður 21 milljón varið til landvörslu um allt land.

Tekjur af gistináttagjaldi eru ekki inni í þessari tölu segir Ingvar Pétur Guðbjörnsson, aðstoðarmaður Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra, heldur munu þær koma til viðbótar við hana. Heildarupphæð til ferðaþjónustunnar mun þannig vera rúmur milljarður króna.
„Á næstu árum verður ráðist í enn frekari umbætur á vinsælum ferðamannastöðum í eigu og umsjón ríkisins með það að markmiði að bæta þar skipulag og aðgengi þannig að staðirnir þoli vel þann fjölda sem þangað sækja,“ segir í tilkynningunni. Undirbúningur fyrir frekari umbætur er þegar hafinn.

„Það er einnig jákvætt og eftirtektarvert að menn séu að horfa til langrar framtíðar með áætlanir um enn frekari uppbyggingu í ferðaþjónustunni,“ bætir Helga við.
Umhverfisstofnun tekur í sama streng og segist fagna skrefi ríkisstjórnarinnar til að koma í veg fyrir frekari skaða á náttúru Íslands. Umhverfisstofnun segir í tilkynningu sinni mikilvægt að hafa í huga að ferðamenn vilji sjá óspillta náttúru og að verkefnin sem ráðist verður í stuðli að því.