Fótbolti

Heimir: Mín mistök að tala ekki skýrar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir
Heimir Hallgrímsson segist hafa gert mistök með því að tala ekki skýrar í viðtali sem hann veitti Viðskiptablaðinu á dögunum. Þar sagðist hann efast um að hann myndi læra meira af því að starfa með Lars Lagerbäck í tvö ár í viðbót.

Heimir og Lars starfa saman sem landsliðsþjálfarar Íslands en samningur þess síðarnefnda við KSÍ rennur út eftir EM í sumar. Ætlunin var þá að Heimir myndi alfarið taka við íslenska landsliðinu þá.

Heimir: Læri ekkert meira á að vera tvö ár með Lars í viðbót

Undanfarnar vikur og mánuði hefur hins vegar komið í ljós að það er vilji KSÍ að halda Lagerbäck áfram og því vöktu ummæli Heimis í því samhengi áhuga. Heimir skýrði ummæli sín í viðtalinu á blaðamannafundi KSÍ í dag.

„Það er alveg klárt að ég virði þann samning sem ég geri við KSÍ. En ef að Lars verður áfram að þá þarf að breyta þeim samningi sem ég gerði og eins og ég sagði í viðtalinu þá mun ég tala við mína yfirmenn um það. En ég sé ekki neitt vandamál við það.“

„Það voru mín mistök að tala ekki skýrar í viðtalinu og ég biðst afsökunar á því. Ég hef margoft sagt hversu mikið ég hef lært af honum ég myndi vilja starfa með honum í mörg ár í viðbót. Það er leiðinlegt ef ég hef valdið einhverjum misskilingi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×