DePodesta á langan feril að baki sem starfsmaður hafnaboltaliða en hann er fyrst og fremst þekktur sem tölfræðingurinn sem kynnti nýjar aðferðir til að meta hafnaboltaleikmenn í kvikmyndinni Moneyball.
Jonah Hill lék persónu í kvikmyndinni sem var að hluta byggður á DePodesta og notkun hans á ítarlegri tölfræðigreiningu til að finna leikmenn og greina þá. Myndin kom út árið 2011 og byggir á samnefndri bók sem kom út árið 2003.
Cleveland hefur gengið illa undanfarin ár og lét á dögunum þjálfarann Mike Pettine fara eftir að liðið vann aðeins þrjá af sextán leikjum sínum á nýliðnu tímabili. Cleveland komst vitanlega ekki í úrslitakeppnina sem hefst um helgina.

Liðið skortir þó sárlega leikstjórnanda en fyrir tveimur árum valdi liðið Johnny Manziel í nýliðavalinu sem átti að verða nýr leiðtogi liðsins inni á vellinum. Hann hefur þó ítrekað komið sér í vandræði fyrir hegðun sína utan vallar og er nú efast um að hann eigi sér framtíð hjá Cleveland Browns.
Sjá einnig: Djammaði í Vegas með hárkollu og gerviskegg
Tölfræði í amerískum fótbolta er ekki jafn ítarleg og í hafnabolta og hefur frekar verið stuðst við líkamlega burði og auga njósnara fyrir hæfileikaríkum leikmönnum þegar lið velja sér leikmenn. Innkoma DePodesta í NFL-deildina gæti breytt þeirri nálgun.