Í grein á vef Kjarnans segir Steingrímur að umtalsverður herkostnaður hafi fylgt svonefndum sigri Íslands í Icesave-málinu. „Hið óleysta Icesave mál tafði efnahagslega endurreisn Íslands umtalsvert og á ýmsan hátt og leiddi væntanlega til þess að samdráttur landsframleiðslu árin 2009 en einkum 2010 varð nokkru meiri en ella hefði orðið,“ segir hann.

„12 til 15 milljarða meiri landsframleiðsla (yfir 20 milljarðar í dag) sem svo vex með okkur ár af ári inn í framtíðina er fljót að telja saman í stórar tölur,“ segir hann. „Framvinda efnahagsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins tafðist beinlínis og eingöngu vegna hins óleysta Icesave máls um 8-9 mánuði.“
Steingrímur segir að Icesave málið hafi tafið það um hálft til eitt ár að íslenska ríkið gæti rutt brautina og opnað upp aðgang að erlendum fjármálamörkuðum; lánskjör ríkisins og seinna bankanna og fleiri hafi verið lakari vegna málsins en ella hefði orðið.

„Þær útgreiðslur hefðu þar með orðið umtalsvert framhlaðnaðri en nú hefur orðið með tilheyrandi minni uppsöfnun vaxta. Ábatinn af styrkingu krónunnar, samanber það sem áður var útskýrt, hefði fallið TIF í skaut og þar með myndast talsverðir fjármunir uppí vaxtagreiðslur til viðbótar því fé sem TIF hefur nú þegar greitt Bretum og Hollendingum,“ segir hann.
Steingrímur segir að mikill vafi leiki á hvor leiðin í Icesave málinu hefði að endingu skilað þjóðhagslega hagfelldari niðurstöðu.
Grein Steingríms má lesa í heild sinni hér.