Körfubolti

Jakob og félagar sátu fastir í marga tíma á flugvelli vegna sprengjuhótunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson.
Jakob Örn Sigurðarson. Vísir/Valli
Jakob Örn Sigurðarson og félagar hans í sænska körfuboltaliðinu Borås Basket eiga útileik á móti BC Luleå í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld en það er óvíst hvort þeir komist norður til Luleå í tæka tíð fyrir leikinn.

Lið Borås Basket lenti nefnilega í miðju ástandi á Gautaborgarflugvelli í morgun þegar allt flug í gegnum flugvöllinn stöðvaðist vegna sprengjuhótunnar.

Staðarblaðið í Borås segir frá málinu á heimsíðu sinni en nú er búið að opna aftur flugvellinum í Gautaborg. Flugvél sem var að fara frá London til Stokkhólms þurfti að lenda í Gautaborg vegna sprengjuhótunnar og á meðan fór enginn flugvél frá Gautaborg.

Borås Basket liðið átti að fljúga frá Gautaborg til Stokkhólms klukkan 9.35 í morgun en Jakob og strákarnir þurftu að dúsa á flugvellinum á meðan flugvallarstarfsmenn unnu í því að fullvissa sig um að engin sprengja væri í flugvélinni sem kom frá London.  Nú er búið að opna flugvöllinn aftur.

Borås Basket liðið komst loksins í loftið eftir margra tíma bið en um leið skapaðist mikil óvissa um að liðið næði hreinlega framhaldsfluginu til Luleå.

Leikur Luleå og Borås Basket á að hefjast í kvöld klukkan 19.04 að sænskum tíma en samkvæmt upplýsingum frá blaðamanni Borås Tidning þá átti liðið að lenda á Arlanda milli 15.30 og 16.00.

Borås Basket spilar mjög marga leiki á þessu tímabili enda á fullu í Evrópukeppninni líka og má félagið því ekki við frestunum. Menn þar á bæ ætla því að gera allt sitt til að ná leiknum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×