Birgitta hrósaði Gunnari Braga sérstaklega í upphafi ræðu sinnar og ítrekaði mikilvægi þess að halda sig við þær aðgerðir sem hafa verið ákveðnar.

Gunnar Bragi svaraði afdráttarlaust og sagði að ekki væri verið að hverfa af braut þeirri stefnu sem hefði verið fylgt. „Það stendur ekki nein vinna yfir um það í ráðuneytinu að hverfa frá þessari utanríkisstefnu sem við höfum haldið og verið partur af fram að þessu,“ sagði Gunnar Bragi.
Hann sagðist hins vegar búinn að ræða í ríkisstjórn að skipa hóp embættismanna til að fara yfir lög um þvinganir hér á landi; það snerist þó ekki um þær þvinganir sem nú væru til umræðu.
Birgitta spurði einnig um hvort þvinganir skiluðu gagni. Ráðherrann sagði svo vera.
„Það eru alveg dæmi um það að það sé gagnsemi en það er líka umdeilanlegt, að sjálfsögðu,“ sagði hann og nefndi sem dæmi þvinganir gegn Íran sem nú er verið að aflétta og Suður-Afríku á sínum tíma. „Það hefur líka verið viðurkennt af hálfu forseta Rússlands að þvingarnir hafa áhrif þar í landi, þó svo að olíuverð hafi kannski meiri áhrif.“