Bæjarstjóri tyrkneska landamærabæjarins Kilis segir að 35.000 flóttamenn bíði nú eftir að komast yfir landamærin til Tyrklands. Fjölgar flóttamönnunum statt og stöðugt en í gær var talið að um 20.000 hefðu beðið við landamærin.
Tyrknesk yfirvöld segjast reiðubúin til þess að aðstoða flóttamennina og hafa gefið þeim mat, teppi og skýli en landamæri Tyrklands eru þó enn lokuð. Nú þegar eru um 2,5 milljónir flóttamanna í Tyrklandi.
Sýrlendingarnir eru á flótta undir hörðum bardögum í nágrenni stærstu borgar Sýrlands, Aleppo, en sýrlenski stjórnarherinn hóf fyrir skömmu mikla sókn gegn uppreisnarmönnum með stuðningi rússneskra flugsveita.
Stækkunarstjóri Evrópusambandsins, Johannes Hahn, hefur hvatt Tyrki eindregið til þess að opna landamærin og segir hann að Genfarsáttmálinb segi til um að ríki verði að taka á móti flóttamönnum en utanríkisráðherrar ESB funda nú í Amsterdam vegna ástandsins í Sýrlandi.
Á fimmtudaginn samþykktu 60 ríki heimsins að veita allt að 1.300 milljörðum í aðstoð vegna ástandsins í Sýrlandi og munu íslensk stjórnvöld leggja til um hálfan milljarð íslenskra króna.