Björgunarsveitin Húnar á Hvammstanga hefur staðið í ströngu síðan óveður skall snarpt á nú seinnipartinn en á svæðinu er nú mikil veðurhæð og ofankoma. Í tilkynningu frá Björgunarfélaginu Landsbjörg kemur fram að ökumenn hafa lent í vanda á brautinni inn að Hvammstanga, sunnan við Múla og á Holtavörðuheiði. Hefur sveitin komið um 20 manns á átta bílum til aðstoðar.
Í Stykkishólmi hefur verið ófærð víða innanbæjar og hið sama var uppi á teningnum í Grenivík. Tilkynnt var um skilti sem var við það að fjúka á Ásbrú og var Björgunarsveit Suðurnesja kölluð út til að festa það.
Sveitir frá Svalbarðseyri og Þingeyjarsýslu hafa einnig aðstoðað vegfarendur er hafa fest bíla sína og á Suðurlandi hafa björgunarsveitir staðið vaktina við lokunar. Sveitir á sunnanverðum Vestfjörðum hafa verið upplýstar um óvissuástand vegna snjóflóðahættu.
