Sé litið til aldursskiptingar kemur í ljós að 56 prósent þeirra sem tóku afstöðu á aldrinum 18-29 ára myndu kjósa Ólaf Ragnar væri gengið til forsetakosninga í dag. Þá segjast 63,2 prósent þeirra sem tóku afstöðu á aldrinum 68 ára og eldri myndu kjósa Ólaf Ragnar.
Stuðningur fólks á aldrinum 30-49 ára og 50-67 ára við Ólaf Ragnar mælist hins vegar minni en á meðal yngsta og elsta aldursbilsins, 51,2 prósent þeirra sem eru á aldrinum 30-49 ára myndu kjósa Ólaf Ragnar en 47,3 prósent þeirra sem eru á aldursbilinu 50-67 ára.
Er þessu öfugt farið hjá Andra Snæ Magnasyni en helstu stuðningsmenn hans eru á aldursbilunum 30-49 ára (29,1%) og 50-67 (27,6%) ef marka má skoðanakönnun MMR. Andri nýtur minnst fylgis meðal 68 ára og eldri eða 19,6 prósent.
Sé litið á þá flokka sem MMR notar til þess að greina niðurstöður könnunarinnar sést að Ólafur Ragnar leiðir í öllum flokkum nema tveimur en Andri Snær nýtur mest fylgis allra frambjóðanda meðal þeirra sem eru með mesta menntun og meðal þeirra sem starfa sem sérfræðingar.
Líkt og kom fram á Vísi í dag nýtur Ólafur Ragnar Grímsson langmests stuðnings landsmanna samkvæmt könnunni, mælist hann með 52,6 prósent fylgi. Andri Snær Magnason er sá sem næst komst Ólafi og mælist með 29,4 prósenta fylgi. Halla Tómasdóttir mældist með 8,8 prósenta fylgi en fylgi annarra frambjóðenda mældist undir 2 prósentum.
Alls tóku 953 þátt í könnuninni sem gerð var dagana 22. til 26. apríl síðastliðinn.
