Með sigrinum tryggðu leikmenn Golden State Warriors sér úrslitaleik á heimavelli á mánudagskvöldið þar sem í boði er sæti í úrslitaeinvíginu á móti Cleveland Cavaliers.
Klay Thompson kom Golden State Warriors til bjargar í nótt og setti nýtt met í úrslitakeppni NBA með því að skora ellefu þriggja stiga körfur í leiknum. Klay Thompson endaði leikinn með 41 stig en gamla metið voru níu þriggja stiga körfur.
Leikurinn var frábær skemmtun og þegar orðinn klassískur í sögu úrslitakeppninnar. Mörg skotanna sem stórskyttur Golden State settu niður í lokin voru af ótrúlegri gerðinni og það var ljóst að NBA-meistararnir ætluðu ekki að láta Oklahoma City Thunder spilla fyrir sér draumatímabilinu.
Stephen Curry skoraði 31 stig þannig að hann og Klay Thompson voru saman með 72 stig í nótt. Curry bætti síðan við 10 fráköstum og 9 stoðsendingum. "Við höfum mikla trú og stórt hjarta og nú höfum við gefið okkur tækifæri til að vinna þetta einvígi," sagði Stephen Curry.
Klay Thompson skoraði alls 19 stig í fjórða leikhlutanum en hann virtist þá setja niður þrista úr ótrúlegustu aðstæðum. "Steph sagði mér áður en við fórum út í fjórða leikhlutann: Þetta er þinn tími. Hann sagði mér að setja upp sýningu og hafa gaman. Ég hlustaði á þessu orð og reyndi að vera sókndjarfur," sagði Thompson eftir leikinn.
Thunder-liðið var 83-75 yfir fyrir lokaleikhlutann og 96-89 yfir þegar fimm mínútur voru eftir. Tveir þristar frá Stephen Curry jöfnuðu leikinn í 99-99 og leikur Oklahoma City Thunder hrundi síðan eftir að Golden State komst yfir á lokamínútunum.
Á síðustu fimm mínútunum missti OKC niður sjö stiga forskot þar sem liðið tapaði sex boltum og tapaði lokakaflanum 19-5. Westbrook, sem var með 11 stoðsendingar og 1 tapaðan bolta í fyrstu þremur leikhlutanum var með enga stoðsendingu og fjóra tapaða bolta í fjórða leikhlutanum.
Golden State Warriors verður á heimavelli í oddaleiknum sem verður á mánudaginn og í beinni á Stöð 2 Sport. Sigurvegarinn kemst í lokaúrslitin á móti Cleveland Cavaliers sem hefjast síðan á fimmtudaginn.