Fótbolti

Sports Illustrated spáir því að Ísland komi mest á óvart á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins.
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins. Vísir/AFP
Evrópumótið í fótbolta hefst á föstudagskvöldið og umfjöllun um keppnina fer stigvaxandi í fjölmiðlum heimsins. Margir eru að spá fyrir um sigurvegara í keppninni en einnig um hvaða lið geta komið á óvart í Frakklandi.

Blaðamaður hins virta bandaríska tímarits Sports Illustrated hefur þannig mjög mikla trú á íslenska fótboltalandsliðinu á Evrópumótinu í Frakklandi. Sá er umræðir heitir Grant Wahl.

Grant Wahl spáir því að íslenska landsliðið komi liða mest á óvart á EM og sé hans „Dark horse" á EM í ár.

Grant Wahl fer yfir helstu atriði tengdum íslenska landsliðinu sem við öll á Íslandi þekkjum mjög vel eins og hvernig Íslands komst á EM, hver sé þjálfari liðsins og hverjir séu aðalstjörnurnar í íslenska liðinu. Það er samt alltaf gaman að sjá talað um Ísland í stóru fjölmiðlunum út í löndum.

Grant Wahl, sem hefur unnið fyrir bæði Sports Illustrated og FOX Sports, komst í heimfregnirnar þegar hann boðaði framboð til forseta FIFA gegn Sepp Blatter en hætti svo við á síðustu stundu.

Grant Wahl er meðal annars höfundur bókarinnar „The Beckham Experiment: How the World's Most Famous Athlete Tried to Conquer America" en sú bók vakti mikla athygli og var umdeild ekki síst fyrir þá mynd sem hann málaði af David Beckham.

Hér fyrir neðan má sjá þessa spá Grant Wahl fyrir Sports Illustrated.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×