Fótbolti

Jón Daði: Tímaspursmál hvenær mörkin koma

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
„Við höfum aðallega nýtt síðustu daga í endurheimt til að gera okkur klára fyrir Liechtenstein,“ sagði Jón Daði Böðvarsson fyrir æfingu íslenska landsliðsins á Laugardalsvellinum í morgun.

Íslenska liðið átti ekki góðan dag gegn Norðmönnum í Osló á miðvikudaginn en strákarnir ætla sér að komast aftur á réttan kjöl eftir magurt gengi í undanförnum vináttulandsleikjum.

„Við töluðum um Noregsleikinn og fórum í gegnum það sem fór úrskeiðis og hvað við getum gert betur. Það er búið núna og við einbeitum okkur bara að næsta verkefni,“ sagði Jón Daði en íslenska liðið mætir Liechtenstein í síðasta leiknum fyrir EM á mánudaginn.

Selfyssingurinn skoraði fyrsta mark Íslands í undankeppni EM 2016, í 3-0 sigrinum á Tyrklandi. Jón Daði hefur hins vegar ekki skorað síðan þá, í 17 landsleikjum. Hann viðurkennir að biðin eftir öðru landsliðsmarkinu sé orðin full löng.

„Auðvitað vil ég skora annað mark, sérstaklega þar sem ég er framherji. Þá gerirðu væntingar til sjálfs þíns að þú skorir,“ sagði Jón Daði.

Þrátt fyrir markaleysið finnur hann fyrir trausti frá landsliðsþjálfurunum, enda gegnir framherjinn mikilvægu hlutverki í íslenska liðinu, ekki síst í varnarleiknum.

„Já, ég finn fyrir því og líka frá leikmönnum. Þetta snýst um að vinna vel fyrir liðið. Mörkin koma, það er bara tímaspursmál,“ sagði Jón Daði.

Hann segist koma vel undan vetri en hann leikur með Kaiserslautern í þýsku B-deildinni.

„Ég er í toppformi og engin meiðsli að hrjá mig,“ sagði Jón Daði sem skoraði tvö mörk í 15 deildarleikjum fyrir Kaiserslautern í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×