Fótbolti

Gylfi: Við vorum eiginlega með þrjú stig í hendi okkar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson gat ekki leynt vonbrigðum sínum eftir leikinn.
Gylfi Þór Sigurðsson gat ekki leynt vonbrigðum sínum eftir leikinn. Vísir/EPA
Gylfi Þór Sigurðsson kom Íslandi í 1-0 á móti Ungverjalandi og það munaði ekki miklu að markið hans hefði dugað til sigurs. Gylfi var því svekktur eftir leikinn.

„Þetta er mjög svekkjandi og mikill skellur fyrir okkur. Við vorum eiginlega með þrjú stig í hendi okkar. Það var smá einbeitingarleysi í lokin því við vorum búnir að verjast vel fram að því. Við verðum bara að klára þetta í næsta leik," sagði Gylfi Þór Sigurðsson í viðtali við Pétur Marteinsson, í útsendingu Símans frá leik Íslands og Ungverjalands á EM í fótbolta í Frakklandi.

„Við erum núna einu stigi nær því að komast áfram en eigum erfiðan leik á móti Austurríki næst. Við verðum bara að gíra okkur upp í hann og vera klárir," sagði Gylfi.

„Við höfum alla trú á því að við komust áfram. Við vorum nokkrum sekúndum frá því að tryggja okkur nokkurn vegin áfram í dag en við náðum því ekki," sagði Gylfi.

„Það býr meira í liðinu. Við eigum að vera mun betri með boltann því við erum að verjast svolítið mikið. Ég hélt að við myndum spila boltanum betur í þessum leik en svona er þetta bara. Við erum á stórmóti og að spila á móti mjög sterkum liðum. Það sýnir hversu góðir við erum að vera svona nálægt því að vinna," sagði Gylfi.

Ísland er með tvö stig eftir tvo leiki en spilar við Austurríki í lokaleiknum á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×