Frábær úrslit íslenska landsliðsins gegn Portúgal hafa heldur betur kveikt elda í hjörtum Íslendinga og svo virðist sem að þeir sem að hafi ákveðið að sitja heima í sumar séu margir hverjir að endurskoða ákvörðun sína.
„Ég fæ tölvupósta og skilaboð á Facebook. Íslendingar eru oft svona, frekar seinir til og hugsa svo „Þarna er stuð, ég vil fara þangað“,“ sagði Þór Bæring í samtali við Reykjavík síðdegis í dag.
Greint var frá því á Vísi í dag að á vef Dohop megi sjá greinilegt stökk í fjölda notenda á vefsíðu fyrirtækisins þar sem leita má að millilandaflugum. Tölurnar sýndu að Íslendingum liggur á að komast til Frakklands.

„Það er hægt að komast eftir krókaleiðum til Frakklands ef að fólk vill virkilega fara. Í Marseille er erfitt að fá hótelherbergi fyrir helgina en París er það stór að það geta nánast allir reddað sér þar. “ segir Þór. Íslands leikur gegn Ungverjalandi í Marseille á laugardaginn áður en að lokaleikur liðsins, gegn Austurríki, fer fram í París á miðvikudaginn.
Þór segir ljóst að eftirspurnin eftir miðum á leiki Íslands sé að aukast og að þeir sem sátu uppi með of marga miða ættu góða möguleika á því losa sig við þá, sé áhugi fyrir því.
Bjartsýnustu menn er þegar farið að dreyma um útsláttarkeppnina sem hefst eftir riðlakeppnina og það lítur út fyrir að Þór sé einn af þeim. Hann er þegar farinn að huga að því að koma flytja Íslendinga út takist Íslandi að komast upp úr riðlakeppninni.
„Ef þetta ævintýri heldur áfram veit ég ekki alveg hvernig við eigum að koma öllum úr landi en það mun takast. Íslendingar kunna að klára slík mál með stíl,“ segir Þór að lokum.
Hlusta má á viðtalið við Þór í spilaranum hér fyrir ofan.