Erlent

Norskt dagblað safnar undirskriftum til að ættleiða Ísland: „Við viljum ykkur aftur“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það vilja allir eignast hlut í litla Íslandi um þessar mundir.
Það vilja allir eignast hlut í litla Íslandi um þessar mundir. vísir/Vilhelm
Norska dagblaðið Dagbladet, eitt stærsta dagblað Noregs, hefur sett af stað undirskriftasöfnun um að ættleiða Ísland í kjölfar jafnteflis Íslands gegn Portúgal á EM í Frakklandi.

„Gleymið Svíunum eða fjallalausa landinu í suðri, það eru Íslendingar, þessi stolta, sterka og veðraða þjóð, sem stendur hjarta okkar næst,“ segir í mikilli lofræðu dagblaðsins um mannkosti hinnar íslensku þjóðar.

„Ríkið sem kaus konu sem forseta í fyrsta sinn í lýðræðislegum kosningum, landið sem hefur framleitt Björk og Eið Guðjohnsen og Baltasar Kormák og Sigur Rós og þrjá sigurvegara í Ungfrú Heimi og EM-hetjurnar sem mættu Portúgal.“

Einnig er minnst á Ingólf Arnarsson sem hafi verið gerður brottrækur frá Noregi eftir að hafa framið morð. Eru Norðmenn allir hvattir til þess að skrifa undir í undirskriftasöfnuninni með orðunum „Nú viljum við ykkur aftur.“

Þegar þessi frétt var skrifuð höfðu 1674 skrifað undir, um 0,03 prósent norsku þjóðarinnar.


Tengdar fréttir

Politiken heldur með Íslandi

Það er ekki leiðinlegt að opna vefsíðu danska fjölmiðilsins Politiken í dag. Þar er tekið á móti fólki með íslenska fánanum og orðunum: Áfram Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×